Ekkert lýðræði án jafnréttis

Áður fyrr var það bara afmarkaður og einsleitur hluti samfélagsins sem fékk að ákveða stefnu þess. Með þátttöku í stjórnmálum. Með atkvæði sínu. Þar á meðal voru ekki konur og hvað þá ungar konur. Konur voru ekki hluti af mengi þeirra einstaklinga sem gátu skriðið yfir hindranir samfélagsins og framkvæmt vilja sinn. Gert sig gildandi. Nýtt sinn persónulega reynsluheim við mótun framtíðarinnar.

Þó réttindin skiluðu sér loks hélt einsleitnin föstum tökum á innviðum valdsins. Það er ekki nóg að eiga réttindi ef þú ert ekki í aðstöðu til að nýta þér þau. Til þess að geta tekið þátt í samfélaginu og notið þinna réttinda verður þú að vera studd og hvött til notkunarinnar.

Enn í dag veigra ungir foreldrar með börn sér við þátttöku í stjórnmálum. Ég þekki persónulega nýleg dæmi þess að öflugar ungar konur velji að sitja hjá þegar tækifærið til virkrar þátttöku býðst vegna þess að það er einfaldlega of flókið að láta dæmið ganga upp. Þó þær iði í skinninu.

Vegna þess að fundirnir eru einmitt haldnir á úlfatímanum. Vegna þess að umgjörðin um stjórnmálin er sköpuð á forsendum fólks sem þarf ekki lengur að sinna ungum börnum með öllu sem því fylgir. Sem muna ekki einu sinni hvernig það var. Sem horfa fram hjá því að það eru forréttindi og ekkert sjálfsagt að hafa bakland sem getur hjálpað til við að leysa úr flækjunum. Forréttindi oft einskorðuð við fólk af íslenskum uppruna.

Þessi staða endurspeglar dýrkeyptan missi fyrir okkur öll. Missir af röddum fólks með ljóslifandi reynsluheim samtímans sem skiptir máli, af röddum sem þurfa að heyrast.Jafnrétti þýðir að öll eigi sömu möguleika og réttindi. Möguleika til að eiga rödd í hinu opinbera, til að sækja sér menntun og störf, til að taka pláss. Þetta er líka ein af grunnstoðum lýðræðis.

Það er ekkert lýðræði án jafnréttis. Það er ekkert lýðræði án jafnra tækifæra og möguleika.

Fögnum því sem vel er gert. Horfumst í augu við það sem verður að breytast. Blindumst ekki af tálsýn þeirri sem birtist í glampanum frá glæstum mælingum sem klappa á bakið - en standa þó fyrir mjög takmarkaðri mynd af raunveruleikanum.

Það er enn verk að vinna. Gleðilegan alþjóðlegan baráttudag kvenna.

Forrige
Forrige

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Næste
Næste

Geta há­skóla­nemar „lifað með veirunni?“